<$BlogRSDURL$>

þriðjudagur, febrúar 15, 2005
 
Þórarinn svarti
Sæli félagar,

Ég sem á að vera löngu farinn að sofa rakst á svar Þórarins við bréfi okkar til Morgunblaðins nú fyrir stuttu. Ég var á leit.is og skrifaði Dolph Lundgren og þá fæ ég upp þessa sora síðu Þórarins (því miður hálfu ári of seint).

Hérna segist hann ekki vilja svara okkur á síðum Morgunblaðins og notar lélega afsökun með því að blanda ritstjóra Morgunblaðsins inn í málið.

Það er nokkuð ljóst að þessi ágæti Þórarinn vill stríð. Ekki nóg með það að hann geri lítið úr mikilfengleika meistara okkar Dolph Lundgrens, heldur kallar hann okkur Félga Dolphs Lundgren veruleikafirrta gaura.

Ég bíð eftir viðbrögðum hinna stjórnarmeðlima en ég mæli með fundi til að fara yfir málin.

Kveðja, Einar Óli

|
föstudagur, febrúar 04, 2005
 
Stuttur pistill um meistara Dolph
Hér er stuttur pistill um Dolph sem við Einararnir skrifuðum:

Það var bjart sumarkvöld þegar við félagarnir fórum út á myndbandsleigu til þess að gera okkur glaðan dag. Var myndin From Hell fyrir valinu en það kom okkur all skemmtilega á óvart þegar okkur var tjáð að ókeypis gömul mynd fylgdi með. Í fyrstu urðum við glaðir en þegar kom að því að velja mynd þá reyndist það erfiðara en margur hélt. Loks eftir mikla leit þá var ein mynd af handahófi rifin úr hillunni. Okkur grunaði ekki hve mikil áhrif þessi mynd mundi hafa á okkur í framtíðinni. Myndin sem varð fyrir valinu var engin önnur en Showdown in Little Tokyo (Gauragangur í litlu Tokyo).

Eitthvað stórkostlegt gerðist, jaðraði við uppljómum, þegar við horfðum á Showdown. Ekki nóg með það að myndin hafi verið ótrúleg heldur var aðalleikarinn undraverður. Þetta var Dolph Lundgren. Ég hef oft hugsað um þennan dag, hvar væri ég staddur ef við hefðum ekki valið þessa mynd? Væri ég jafn hamingjusamur? Ég stórlega efa það því Dolph hefur veitt mér styrk á þeim stundum þegar ekkert virtist ganga upp.

En hvað var svona merkilegt við þessa mynd? Hvers vegna héldum við ekki vatni yfir Dolph? Hver er þessi Dolph? Margar spurningar sem þessar hljóta að koma upp á yfirborðið því fáir hafa heyrt Dolphs getins.

Dolph fæddist í Stokkhólmi sem Hans Lundgren þann 3. nóvember 1957 (sumir vilja meina 1959 en hann, eins og aðrar stjörnur, vill gera sig yngri en hann í raun er). Seinna tók hann upp listamannsnafnið Dolph. Þrátt fyrir áhuga á tónlist á yngri árum þá ákvað hann að feta í fótspor föður síns og hóf nám í verkfræði við Konunglega Tækniháskólann í Stokkhólmi að lokinni herkvaðningu. Dolph var þó fullur af ævintýraþrá og var ekki lengi að fara út fyrir heimahagana. Hann var lengi vel í Bandaríkjunum í hinum ýmsu skólum og fékk að lokum fullan námsstyrk til að stunda nám í háskólanum í Sydney árið 1982. Ári seinna fékk hann Fulbright námsstyrk til að stunda nám í Massachuttes Institute of Technology(MIT) í Boston, einum frægasta skóla í heimi.

Á leið sinni til Boston kom Dolph við í New York og tók þá líf hans óvænta stefnu. Hann hitti þar leiklistarkennarann Warren Robertson og ákvað Dolph í kjölfarið að reyna fyrir sér í leiklist. Í fyrstu átti hann erfitt með að finna hlutverk og vann m.a. sem dyravörður á skemmtistað til þess að afla sér peninga. En einn góðan veðurdag 1984 var hringt í Dolph og honum var sagt að Sylvester Stallone hefði áhuga á að fá Dolph í mynd sem að hann var að gera. Hann flaug beinustu leið til Los Angeles þar sem hann fór í prufu ásamt 5000 öðrum leikurum sem allir vonuðust eftir að hreppa þetta drauma hlutverk. Eftir 5 mánaða prufur var ákveðið að Dolph myndi leika hnefaleikakappan Ivan Drago í stórmyndinni Rocky IV. Sló sú mynd algjörlega í gegn og var hún vinsælasta Rocky myndina á eftir þeirri fyrstu. Gerði Dolph persónuna Ivan Drago ódauðlega með minnistæðum leik. Setningin ,,I must break you!” er ein af frægari setningum kvikmyndasögunnar.

Eftir Rocky IV þá komu verkefnin til Dolphs á færibandi. Hann lék He-Man í stórmyndinni Masters of the Univers og síðan lék hann í The Punisher en sú mynd var endurgerð nýlega. Árið 1987 gaf Dolph svo út æfingarmyndbandið Maximum Potential þar sem hann kennir fólki að koma sér í form. Fátt er glæsilegra en Dolph í spandex buxum og mæli ég eindregið með að allir sjái þetta myndband. Dolph hefur sannað að vöðvar og vit geta farið saman þó ákveðnir ríkisstjórar sýni annað.

Dolph er ekki bara fágaður leikari heldur einnig mikill íþróttamaður og hugsuður. Þrátt fyrir að hafa greinst með astma á yngri árum og lítið geta stundað þær þá ákvað hann að reyna fyrir sér í íþróttum eftir tvítugt. Hefur Dolph náð ótrúlegum árangri á sviði íþrótta. Er hann með 3. gráðu af svarta beltinu í Karate en hann varð Evrópumeistari í þeirri grein tvisvar á 9. áratugnum þar sem Dolph vann m. a. Van Damme í úrslitum. Var hann einnig þjálfari fimmtarþrautarliðs Bandaríkjamanna á Ólympíuleikunum í Atlanta 1996 og gerði hann myndina The Pentathlon í kjölfarið. Á sviði hugaríþrótta er Dolph ekki síðri. Þegar hann var lítill þá var Dolph mikið innandyra vegna astmans og las eins og hestur. Þar fékk Dolph áhuga á vísindum enda gerðist hann verkfræðingur eins og áður hefur verið sagt. Er Dolph með greindarvísitöluna 160 og talar mörg tungumál, t.d. ensku, sænsku, ítölsku, frönsku og þýsku.

Í dag á Dolph heimili í Los Angeles og London. Því miður fyrir kvenfólkið þá er hann harðgiftur henni Annette Qviberg og eiga þau saman dæturnar Idu og Grétu. Árið 2001 kom Dolph með þá yfirlýsingu að hann væri hættur að leika í kvikmyndum til þess að sinna fjölskyldunni betur en sem betur fer fyrir alla aðdáendurna hans þá stóð Dolph ekki lengi við þau orð. Nú er hann að framleiða tvær myndir, m. a. The Defender þar sem Dolph leikur ásamt stórleikaranum Jerry Springer og leikstýrir Dolph myndinni. Er það frumraun Dolphs sem leikstjóri og verður fróðlegt að sjá hvernig til tekst þó ég efast ekki um að hann skapi enn eitt meistaraverkið.
En hvernig stendur á því að maður geti búið yfir eins miklum hæfileikum, gáfum og fegurð eins og Dolph býr yfir? Það er spurning sem margir hafa íhugað. M.a. hafa ég og félagar mínir hugsað um þetta lengi. Við komumst að þeirri niðurstöðu að Dolph sé í raun hinn fullkomni maður og hlýtur hann vera einn af þessum sárafáum sem einfaldlega fæðast svona. Ég vil jafnvel ganga svo langt og kalla Dolph Messías okkar tíma. Til þess að kynna Dolph fyrir landi og þjóð og kynnast honum betur þá höfum ég og félagar mínir stofnað félagið Félagar Dolph Lundgrens (FDL) og höldum við út vefsíðunni www.dolph.tk.

Í lokin vil ég mæla með myndum fyrir fólk sem er að byrja að kynnast meistaranum núna:

Showdown in Little Tokyo, myndin sem kynnti okkur fyrir honum og er án efa eins besta hasarmynd sem gerist í Litlu Tokyo.
Rocky IV, myndin sem Dolph á kortið, allir ættu að hafa gaman af henni.
The Punisher, myndin sem hasarmyndaáhugamaðurinn á að leigja, Dolph drepur 150 manns í myndinni.
Blackjack, mynd sem John Woo leikstýrir og passar Dolph mjög vel inn í hlutverk Jacks.
Og ein mynd sem ég vil benda fólki á að forðast en hún heitir The Last Patrol. Lang lélegasta mynd Dolphs og varð ég fyrir gífurlegum vonbrigðum þegar ég sá hana.

|

Free Hit Counters
Free Counter